144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nú segja það í þessari umræðu að ég fagna því að þetta fólk kom hérna áðan og lýsti skoðunum sínum í þessu máli. Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum þess og það sýndi af sér prúðmannlega framkomu hérna úti. Ég fór aðeins hér út fyrir og hitti fólkið og talaði aðeins við það. Mér finnst þetta bara besta mál. Það er auðvitað alveg ljóst að það verða engar framkvæmdir í landinu án þess að einhver sár verði eftir það, við gerum okkur grein fyrir því. Ég held að í raun séum við öll náttúruverndarsinnar. Það er þannig. (BirgJ: Haha, nei.) En við þurfum auðvitað að finna mjúku línuna í því hvar við ætlum að virkja og hvar ekki.

Varðandi Skrokköldu er það á gróðurlausu svæði langt inni í óbyggðum og nánast öll framkvæmdin væri neðanjarðar og mundi sjást afar lítið. Gangnamunninn er svona álíka mikilfenglegur og Hvalfjarðargöngin. Það er nú það sem sést og síðan (Forseti hringir.) kílómetralangur fráveituskurður. Það er því dæmi um framkvæmd (Forseti hringir.) sem skaðar ekki mjög mikið, en allar framkvæmdir skilja eftir sig sár, það er ljóst.