144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í fyrsta skipti til að ræða um fundarstjórn forseta. Mig langar til að ræða um mikilvægi sáttarinnar í samfélaginu og hvað hún er gríðarlega mikilvæg. Eitt það mikilvægasta sem við eigum í samfélaginu er sátt og friður. Mér finnst sú ákvörðun hæstv. forseta Alþingis að koma með þetta mál á dagskrá ekki vera liður í því að auka sáttina í samfélaginu, nógu er nú ástandið slæmt samt í kjaramálum og öðru. Því miður virðast svona vinnubrögð einkenna þjóð okkar, ekki síst þegar verið er að taka þessi mál úr faglegu ferli. Reynt var að búa til faglegt ferli, góða stjórnsýslu og þetta er liður í því að eyðileggja það.

Mig langar líka til að minnast á að árið 2010 skrifaði Andri Snær Magnason, sá ágæti rithöfundur, ættjarðarvinur og náttúruunnandi, grein á heimasíðuna sína sem hét „Í landi hinna klikkuðu karlmanna“ þar sem hann fór í gegnum þá virkjunargeðveiki sem einkennir Ísland. Mér líður svolítið eins og ég sé akkúrat staddur í því landi núna, í landi hinna klikkuðu karlmanna.