144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er hér næst í ræðustól og ég mundi vilja að menn sem flytja þessa tillögu væru hér og hlýddu á það sem við höfum að segja. Ég er kannski ekki að fara að halda ræðu sem þeir mega alls ekki missa af, en það eru þar efnisatriði sem ég mundi gjarnan vilja fá svör við. Ég bið um það, virðulegi forseti, að að minnsta kosti formaður nefndarinnar, sem er 1. flutningsmaður að málinu, verði kallaður hingað.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, alveg eins og er að ég hef aldrei á ævi minni og aldrei síðan ég kom hingað inn á þing orðið vitni að jafn mikilli níðslu og hér á sér stað. Verið er að taka ákvörðun um að þingsályktunartillögu, sem kemur upphaflega inn með einum kosti, einum virkjunarkosti, verði breytt og send í gegnum síðari umr. með fimm kostum, þannig að við fáum eina umræðu til að ræða þetta. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hér eru bolabrögð á ferðinni. Hér er níðsla (Forseti hringir.) á ferðinni. Og hér (Forseti hringir.) eru andlýðræðisleg vinnubrögð á ferðinni. Þetta er svo skammarlegt að við erum öll miður okkar sem stöndum hér í þessu.