144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að þetta mál mun ekki fara auðveldlega í gegnum þingið. [Kliður í þingsal.] Það er allt of mikið í húfi (Forseti hringir.) þegar menn eru að fjalla um jafn stór mál og náttúruverndarmál og vernd og nýtingu. Það kemur alltaf betur og betur í ljós, og það er gagnsemi umræðunnar, hversu illa það er ígrundað sem hér er á bak við. Hér koma hv. þingmenn eftir þingmenn og þeir hafa ekki lesið rammaáætlunarlögin. Hér koma menn sem tala fyrir því að finna þurfi form til að leita sátta. Það var búið að finna það. Það var samþykkt af öllum þingmönnum sem voru í þinginu. Hvaða virðingarleysi er það við þau lög (Gripið fram í.) að fara svo á skjön við þau? Þau voru aldrei brotin, ef menn lesa lögin í staðinn fyrir að hlusta á einhvern einn sem túlkar þetta, sem er hv. formaður atvinnuveganefndar. Ef menn lesa þau sjálfir (Gripið fram í.) átta þeir sig á því að það fór í umsagnarferli (Gripið fram í.) og samkvæmt lögum var þeim málum breytt og þau voru eingöngu sett í biðflokk til þess að skoða (Forseti hringir.) þau betur. Það er enginn ágreiningur um að þegar málið kemur frá verkefnisstjórn munum við taka þátt í að afgreiða það. (Gripið fram í.) Við getum hreinlega aldrei komið þessu máli áfram nema koma því aftur inn í (Forseti hringir.) rammaáætlunarferlið og hætta þessum kraftaleikjum hér, (Forseti hringir.) sem eru níðingsverk við bæði þingið og náttúruna.