144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í þessum sal eru ýmsar skoðanir á því hvað eigi að friða og hvað eigi að virkja, eða vernda og virkja. Hér er örugglega hægt að finna sextíu og þrjár ólíkar skoðanir á því. Hér hefur um áratugaskeið verið ófriður út af þessum málum. Rammaáætlun var leið til að miðla málum. Þar fær enginn allar sínar óskir. Þar er fundin leið sem allir geta sammælst um, þ.e. hún er leikreglur sem við höfum sammælst um að fara að. Þetta mál er ekki í samræmi við þær leikreglur, eða breytingartillagan við það. Þess vegna, herra forseti, tel ég óeðlilegt að málið sé hér á dagskrá.