144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefur ekki verið neitt jafnvægi í því hvernig menn hafa nálgast rammaáætlun. Ef það á í alvörunni að nota hana sem verkfæri eiga menn auðvitað líka að fara í það lögbundna ferli að fara út í friðlýsingar á þessum svæðum. Það hefur þess vegna verið mjög sorglegt að sjá að stjórnvöld hafa ákveðið að túlka lög um rammaáætlun þannig að meira að segja kostir sem ekki eru lagðir af stað í friðlýsingarferli í verndarflokki eru sífellt sendir í endurmat innan verkefnisstjórnar. Þetta gengur gegn anda laganna sem sett voru á síðasta kjörtímabili. Það sýnir sig kannski best í því að í þeim lögum er kveðið á um að sveitarfélögum beri að hefja strax breytingar á skipulagi í samræmi við niðurstöðu rammaáætlunar og flokkunar þar, sveitarfélögin eiga að fara strax í það ferli að breyta skipulagi sínu eins og (Forseti hringir.) verið sé að fara að friðlýsa, en ríkisvaldið telur hins vegar (Forseti hringir.) að það geti túlkað lögin með þeim hætti að þessir kostir séu (Forseti hringir.) í sífelldu endurmati. Þetta stenst ekki, virðulegi forseti.