144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til dagskrár þriðja daginn í röð um mál sem forseta hlýtur að vera ljóst að er óverjandi að hafa á dagskrá í því andrúmslofti sem nú er í samfélaginu. Ég spyr bara virðulegan forseta: Er eitthvað óskýrt í því að það er óskynsamlegt að hafa rammaáætlun á dagskrá? Vantar eitthvað upp á það að stjórnarandstaðan og samfélagið þarna úti geri grein fyrir því að það er annað sem er mikilvægara að ræða þessa dagana en skemmdarverk Jóns Gunnarssonar og stjórnarmeirihlutans? Er mönnum ekki ljóst að það eru logandi verkföll hérna úti um allt samfélag? Áttar ríkisstjórnarmeirihlutinn sig ekki á því hvert ástandið er á Íslandi í dag? Hvernig eigum við að fara að því að leiða forseta það fyrir sjónir hver staðan er? Eða stafar vandræðagangurinn af því að Ísland er í raun forustulaust þessa dagana, þessar vikurnar og þessi missirin, að það er engin heildarsýn (Forseti hringir.) yfir stöðuna á Íslandi í dag?