144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki þannig að það sé eingöngu forseti sem ákveði að setja þetta mál á dagskrá þessa dagana. Ég held að þessi stjórnarmeirihluti ímyndi sér á einhvern undarlegan hátt sem mjög erfitt er að setja fingurinn á að ástæðan fyrir því að sjö af hverjum tíu landsmönnum treysta ekki þessari ríkisstjórn sé sú að það vanti fleiri virkjanir í landinu. Ég held að þessi ríkisstjórn og þessi stjórnarmeirihluti ímyndi sér að ástæðan fyrir því að hér logar allt í illdeilum á vinnumarkaði og verkföll eru að lama samfélagið sé sú að það vanti að virkja við Hagavatn. Og um leið og það náist að koma því í gegn muni allt falla hér í ljúfa löð, traust á Alþingi muni vaxa og 80% þjóðarinnar muni flykkja sér að baki stjórnarflokkunum. Það er einhver veruleikafirring sem ræður því að þegar átta heilir dagar eru eftir af þessum þingvetri samkvæmt starfsáætlun sé á dagskrá mál (Forseti hringir.) sem fullkomið ósætti er um hér í þinginu, fullkomið.