144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í lok þessa mánaðar getur farið svo að um 100.000 manns verði í verkfalli hér á landi. Liðið er á sjöundu viku frá því að verkföll hófust hjá ákveðnum hópum í samfélaginu. Og hvað gerir þessi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn þá? Setur á dagskrá vægast sagt umdeildar tillögur um breytingar á rammaáætlun og eyðileggingu á því ferli. Til hvers? Við höfum nefnt það hér, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að líkleg ástæða sé sú að verið sé að breiða yfir fullkomið getuleysi þessarar ríkisstjórnar til að takast á við það sem er í gangi á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Ákall þeirra sem eru núna í verkföllum eða eru á leiðinni í verkfall eru bætt lífskjör og bætt lífsskilyrði. Ríkisstjórnin og Alþingi geta komið með fjölmargar tillögur inn í þær aðstæður til að svara því kalli. Hverju skila menn hingað inn? (Forseti hringir.) Engu. Menn skila auðu, virðulegi forseti.