144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst skrýtið hvað við erum oft sett í þá stöðu að rökræða dagskrána hérna. Maður hefði haldið að þessi ágæta ponta væri helst hugsuð til þess að menn skiptust á skoðunum og létu þær í ljós á efnislegu innihaldi mála en þess í stað erum við í sífelldum deilum um dagskrána.

Nú er auðvelt að kvarta undan því að þingmenn stjórnarandstöðunnar dirfist að koma hingað og láta í ljós skoðun sína en það er lítið annað hægt að gera þegar hún er hunsuð ítrekað, aftur og aftur, stanslaust reyndar. Það er nóg af málum sem við þyrftum að ræða hér, þar á meðal kjaradeilurnar sem við horfum núna fram á. Við ættum að einbeita okkur að þeim málum sem er þó sátt um að ræða yfir höfuð. Látum þetta bíða. Það eru örfáir dagar eftir af þessu þingi, a.m.k. samkvæmt starfsáætlun sem mann er farið að gruna að muni eitthvað lengjast, ef við ætlum að gera eitthvað.

Ég velti fyrir mér tilganginum með þessu. Hvers vegna þarf þetta að vera á dagskrá? Er ekki nóg af öðrum málum sem við gætum rætt, er ekki nóg af öðrum krísum í (Forseti hringir.) samfélaginu sem við þurfum að ræða?