144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Dagskrárvaldið er hjá hæstv. forseta og þegar núna eru bara örfáir dagar til þingloka hefði maður haldið að hæstv. ráðherrar mundu beita þrýstingi á að koma sínum málum hérna í gegn. Er þetta mál, sem er núna afbakað, í boði einhvers ráðherra? Nei, það er það ekki, það er í boði meiri hluta atvinnuveganefndar, sex þingmanna. Eru þessir sex þingmenn atvinnuveganefndar orðnir ígildi ráðherra? Hvað með hæstvirta ráðherra, eru þeir alveg rænulausir og hafa engan áhuga á að koma sínum málum fram og komast á dagskrá þingsins? Hvað ætla þeir að halda þinginu lengi, þessir sex þykjusturáðherrar í atvinnuveganefnd? Ég held að það sé kominn tími til að menn fari aðeins að hugsa forgangsröðun á dagskrá þingsins.