144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hér koma stjórnarandstöðuþingmenn ítrekað og gera athugasemdir við dagskrá, að hér sé tekið fyrir þetta mál, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það því hv. þingmenn eru í fullum rétti í því efni. Við í stjórnarmeirihlutanum hlítum hins vegar úrskurði hæstv. forseta, svo það sé alveg skýrt.

Hér koma hv. þingmenn ítrekað upp og vilja ræða stöðu á vinnumarkaði. Það viljum við öll gera. (Gripið fram í: Já!) [Kliður í þingsal.] Ég vil benda á það að hér er liður, óundirbúnar fyrirspurnir, og hæstv. ráðherrar bíða hér í röðum eftir því að fá að tala við ykkur um þær. Af hverju byrjum við ekki á þeim lið? (RM: Það kemur að því.) (Gripið fram í: Við stjórnum því ekki.)