144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati. Dettur einhverjum í hug að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar sé í anda þessara laga þar sem þeir telja sig þess umkomna að fara fram hjá faglegu mati og leggja til hér nýtingarkosti?

Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kom hér í ræðustól og bauð upp á pólitísk hrossakaup um virkjunarkosti. (BirgJ: Honum er alveg sama um …) Hv. þingmaður er einn af sex flutningsmönnum breytingartillögunnar. Hv. þingmaður áttar sig ekki á þeirri vinnu, tæplega 20 ára vinnu, sem liggur að baki rammaáætlun. Bara tilboð hv. þingmanns er nægilegt (Forseti hringir.) til þess að hæstv. forseti taki málið af dagskrá.