144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingar á skattkerfinu.

[11:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég skilji alveg svar hæstv. forsætisráðherra, ég verð að viðurkenna það, ég veit þó að hann byrjaði á að segja að þetta væri allt saman misskilningur. Ég hef heyrt það áður frá hæstv. forsætisráðherra að allt sé þetta misskilningur. Gott og vel, þrepaskipt skattkerfi hefur aukið jöfnuð og hæstv. forsætisráðherra sagði að jöfnuður í tekjudreifingu hefði aukist, það er rétt hjá honum. Það byrjaði í tíð síðustu ríkisstjórnar þó að hæstv. forsætisráðherra eigi mjög erfitt með að viðurkenna það, ekki síst vegna þeirra aðgerða sem var ráðist í hvað varðar skattkerfið. Það sem OECD bendir á er að skattkerfið getur verið lykiltæki til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Fækkun þrepa mun ekki auka jöfnuð í samfélaginu. Hæstv. forsætisráðherra segir að hann vilji auka jöfnuð í samfélaginu, mér finnst það gott, við erum sammála um það, en hvaða máli skipta þau sjónarmið þegar við heyrum ítrekað frá hæstv. fjármálaráðherra að hann vilji einfalda skattkerfið sem þýðir að fækka skattþrepum og hverfa aftur til skattapólitíkur fyrirhrunsáranna, skattapólitíkur Sjálfstæðisflokksins? Mun hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) stöðva það eða verður málflutningur hæstv. forsætisráðherra stöðvaður eins og mál Framsóknarflokksins virðast almennt vera hjá ríkisstjórninni, stopp hjá Sjálfstæðisflokknum?