144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingartillaga við rammaáætlun.

[11:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hafði reyndar hugsað mér að nota tækifærið til þess að ræða aðeins um fundarstjórn forseta hér í leiðinni. Ég vil benda virðulegum forseta á það að hafi þurft frekar vitnanna við um hvers konar skrípaleikur hefur verið hér í gangi undanfarna daga er það óþarfi eftir ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Nú þegar búið er að tilkynna það að verið sé að leiða mál til lykta með sátt á þann hátt sem stjórnarandstaðan hefur beðið um, á þann hátt sem hæstv. umhverfisráðherra [Frammíköll í þingsal.] hefur lagt til, (Forseti hringir.) þá fyrst byrja menn að æsa sig.

Virðulegur forseti. Ég held að hér hafi glögglega komið í ljós að öll þessi umræða um fundarstjórn forseta, allur sá hamagangur sem við höfum horft upp á í þinginu, æsingurinn sem birtist m.a. í frammíköllum núna í þessu svari mínu, er til þess eins að skapa æsing, búa til ágreining og þar skiptir engu máli hvað er undirliggjandi. Það skiptir engu máli þó að orðið sé við óskum stjórnarandstöðunnar, það skiptir engu máli þó að menn séu tilbúnir að gefa sér enn meiri tíma í að ræða málin og leysa þau í sátt, sama hvað er lagt fram hér, (Forseti hringir.) þá æsir stjórnarandstaðan sig og andmælir því, þó að það séu hennar eigin hugmyndir að einhverju leyti. (Gripið fram í.)