144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

samráð um þingstörfin.

[11:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er eiginlega alveg orðlaus, þetta er svo skrýtið allt saman. Það er alveg greinilegt að það sem ég ræddi hér áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta og lagði til þarf að gerast núna strax. Það er að formenn flokkanna hittist og ræði um ástandið hérna. Það er einhvern veginn þannig að það nær enginn að búa til neinar brýr neins staðar. Það er nauðsynlegt, hæstv. forsætisráðherra, að koma úr glerturninum niður til okkar þingmanna og formanna stjórnarandstöðuflokkanna til að ræða um hvernig við getum fundið skynsamlegar lausnir á þeim vandamálum sem blasa við í samfélaginu. Ég óttast að allt þetta mál í kringum rammann sé einfaldlega til að breiða yfir þá staðreynd, það sem margir í samfélaginu upplifa sem getuleysi ríkisstjórnarinnar til að takast á við þessi stóru vandamál. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji ekki nauðsynlegt að við hittumst, við formenn flokkanna, til að reyna að sjá hvort við getum fundið einhverjar sameiginlegar lausnir. Eða hefur hæstv. forsætisráðherra enga trú á að hægt sé að finna neina lausn fyrir fram?

Ég held að það mundi hjálpa til af því að það er bara þannig að alltaf þegar hæstv. forsætisráðherra kemur í pontu er eins og allir misskilji hann. Ég held að þetta væri þá til þess að tryggja að svona mikils misskilnings gæti ekki. Ég ætla síðan að fara yfir þau frumvörp sem ég vona að séu að koma hingað inn þannig að við getum tekið þau til efnislegrar umræðu og tekið þau fram fyrir þetta umdeilda mál um rammann.