144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

samráð um þingstörfin.

[11:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Lausnin hér á þinginu hlýtur að liggja í því að ræða málin. Til þess erum við hér. (Gripið fram í.) Ef menn hleypa málum á dagskrá (Gripið fram í.) og þora að rökræða í stað þess að standa hér heilu dagana og ræða fundarstjórn forseta mun okkur miða eitthvað áfram og þá verður um eitthvað að ræða. (Gripið fram í.) En það er til lítils að halda —

Virðulegur forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir virðist ekki geta setið á sér og hlustað á eitt einasta svar án þess að vera með stöðug frammíköll. Það er kannski vegna þess að hv. þingmaður hefur gengið hvað harðast fram í því sem ég var að gagnrýna áðan, að vera hér að búa til æsing úr engu.

En ég ætla að halda áfram að svara spurningu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að gefa hljóð meðan hæstv. forsætisráðherra talar, og sömuleiðis almennt meðan þingmenn eru að tala í ræðustól.)

Virðulegur forseti. Til að hægt sé að ræða málin af einhverju viti og skipuleggja sig verða menn að leyfa málum að komast á dagskrá. Þeir verða að vera tilbúnir að fara í rökræðu um þau. Það er ekki hægt fyrir ríkisstjórn að fara að ræða við fulltrúa minni hlutans undir hótunum eins og hafa birst hér í dag, algjörlega afdráttarlausar og skýrar, um að menn muni ekki fá að ræða mál í þinginu nema þeir geri eins og stjórnarandstaðan vill. Við þær aðstæður er ekki hægt að halda samráðsfundi. Ef menn halda hins vegar áfram með dagskrá þingsins, vinna þetta eins og menn, eins og ætlast er til, (Gripið fram í.) rökræða hér hlutina er sjálfsagt mál að halda þess vegna daglega fundi með stjórnarandstöðunni til að ræða hvernig við látum þau þokast sem best áfram. En að fara í einhverjar viðræður undir hótunum eins og hafa komið mjög skýrt fram hér í dag, hótunum um að þingið fái ekki að starfa, er ekki raunhæfur kostur, virðulegi forseti. (KaJúl: Það er ekki önnur umræða um þetta mál, þetta er síðasta umræðan.)