144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

samráð um þingstörfin.

[11:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð eiginlega bara enn dolfallnari yfir málflutningi hæstv. forsætisráðherra. Við höfum í minni hlutanum ítrekað kallað eftir samráði við ríkisstjórnina varðandi þessi stóru og miklu mál sem ríkisstjórnin þarf að koma í gegn, eins og til dæmis afnám gjaldeyrishafta, stöðugleikaskattinn. Það er greinilega enginn áhugi og væntanlega engin geta eða vilji til að leysa þau stóru mál. Það er ljóst miðað við þau svör hæstv. forsætisráðherra að hóta því að vilja ekki tala við formenn stjórnarandstöðunnar nema við setjum rammann á dagskrá. Það er alveg með ólíkindum. En þá er alveg ljóst og ég skal bara segja það fyrir mína hönd að ég sé enga ástæðu til þess að við formenn eða þingflokksformenn eigum nokkurt samtal um lok þingsins við forustu ríkisstjórnarinnar.