144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

rammaáætlun.

[11:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er búið að fjalla um Skrokkölduvirkjun og aðrar virkjanir sem verða vonandi til umræðu hér í dag ef stjórnarandstaðan hættir að ræða endalaust um fundarstjórn forseta. Hér er verið að gera það sem, af því að kjaraviðræður hafa mikið verið ræddar og mikilvægi þess að liðka fyrir þeim, Alþýðusamband Íslands hefur ekki bara beðið um heldur farið fram á, bæði í erindum til þingsins og ítrekað svo af miðstjórn Alþýðusambandsins, reyndar ekki gengið eins langt og Alþýðusambandið fór fram á, ég skal viðurkenna það, en verið þó að stíga skref til að koma til móts við kröfur Alþýðusambandsins og við skulum vona að það verði gott innlegg í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir enda veitir ekki af því að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og bæta kjör fólks. Það hefur reyndar gengið vel undanfarin tvö ár, kaupmáttur hefur aukist um 8% á tveimur árum, en til þess að halda áfram að auka kaupmátt á Íslandi og vonandi þá liðka fyrir því að ásættanleg niðurstaða fyrir alla náist í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir þurfum við að halda áfram að auka verðmætasköpun og til þess þurfum við meðal annars orku eins og Alþýðusambandið hefur ítrekað bent á. Þó að við séum ekki að öllu leyti að koma til móts við kröfur Alþýðusambandsins erum við þó að stíga skref í áttina og vonandi þvælist stjórnarandstaðan ekki fyrir því marga daga í viðbót.