144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks.

[11:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að margar af þeim tillögum sem þarna eru settar fram eru til mikilla bóta og er full þörf á. Það liggur fyrir að sumar þessara tillagna snerta Sjúkratryggingar Íslands og að sjálfsögðu aðra þætti. Til þess að þær geti orðið að veruleika þyrftu að koma tillögur til breytinga á lögum. Það gerist ekki á þessu þingi en hugsanlega á haustþinginu komandi. Í annan stað liggur fyrir að heildarmat á kostnaðaráhrifum þeirra tillagna sem starfshópurinn gerði eru rúmar 210 milljónir, ef ég man rétt. Þetta er á þessari stundu allt í vinnslu. Ég tek undir með hv. þingmanni í þeim efnum að tillögurnar sem þarna liggja fyrir eru til bóta í þágu þess fólks sem þarf á þeim úrbótum að halda sem um var fjallað.