144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[13:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að það sé erfitt að skýra þetta út. Ég skil alveg hvað hæstv. ráðherra er að segja. Það sem hæstv. ráðherra er að segja er að hún taki ekki mark á núverandi verkefnisstjórn, að hún ætli að taka mark á verkefnisstjórn rammaáætlunar í 2. áfanga en hunsa núverandi verkefnisstjórn sem vinnur væntanlega að því hörðum höndum að ljúka mati á þessum flokkum. Hæstv. ráðherra telur nægja að horfa til fyrri verkefnisstjórnar. Hún lýsir hér vantrausti á núverandi verkefnisstjórn og sitt eigið ráðuneyti sem segir í minnisblaði að virkjunarkostir við Skrokköldu, Hágöngur I og II, Hagavatn og Hólmsá við Atley séu enn þá í umfjöllun hjá verkefnisstjórn að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, verkefnisstjórnin hafi ekki skilað tillögu um flokkun þessara kosta og það sé því mat ráðuneytisins að lögin geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og (Forseti hringir.) orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram um þá. Er hæstv. ráðherra ósammála eigin ráðuneyti?