144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[13:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikla trú á verkefnisstjórn um rammaáætlun. Eitt af mínum fyrstu verkum þegar ég tók við um áramót var að kalla til formann verkefnisstjórnar og segja að nú værum við að hefja nýjan feril. Við settum okkur tímaplan, ákváðum verklag og höfum unnið mjög vel saman. Mig langaði til þess að geta unnið þannig að loksins yrði friður um þetta verkfæri sem Alþingi Íslendinga hefur búið til. (Gripið fram í.) Ég tek við ákveðinni gjörð sem var sett hér fram sl. haust, var komin í þinglega meðferð þegar ég tók við og ég hef ekki skipt mér af þeirri þinglegu meðferð. Ég hef ekki verið að því. (LRM: … núna.) (BjG: … ríkisstjórninni.)

Maður má nú ræða á fundum. Ég var að segja mína skoðun, að þar sem Hagavatn hefði aldrei, hvorki í 2. áfanga (Forseti hringir.) né 3. áfanga, verið sett í orkunýtingarflokk fyndist mér ekki tækt að við hefðum þá virkjun með.