144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér eins og á síðasta kjörtímabili hafi menn bara vippað einhverjum kostum til og frá og skellt Eldvörpum sisona í nýtingarflokk. Menn fóru einfaldlega eftir faglegri ráðgjöf verkefnisstjórnar og faglegri flokkun hennar. Þegar lögin segja okkur síðan að fara í 12 vikna umsagnarferli þá gerum við það. Hvað eigum við svo að gera við umsagnirnar sem koma út úr því? Hvað hefði hv. þingmaður gert við þær? Miðað við hvernig hann talar þá hefði hann hent þeim eða jafnvel sleppt þessu umsagnarferli þó að lögin segðu til um það vegna þess að lögin virðast ekki skipta hann neinu máli. Hvað hefði hann gert við þetta?

Það sem við gerðum í staðinn fyrir að taka ákvarðanir á persónulegum nótum eða út frá eigin smekk og tilfinningum var að biðja verkefnisstjórnina um þetta. Heldur þú að það hafi verið auðvelt fyrir þingmenn eins og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur að fylgja þessu úr hlaði á lokasprettinum og koma með tillögur sem fólu í sér alla þessa kosti á Reykjanesinu og (Forseti hringir.) Suðurlandi miðað við það sem þar átti sér stað? Auðvitað ekki. (Forseti hringir.) En hvers vegna gerði hún það? Af því hún trúði á ferlið. (Forseti hringir.) Menn hafa alls konar skoðanir, virðulegi forseti, en þeir eiga að fylgja lögbundnu ferli.