144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst síðasta ræðan hafa afhjúpað og stutt það sem við höfum verið að biðja um, að þetta mál verði tekið af dagskrá. Það er algerlega ljóst í mínum huga að hv. þingmenn sem skrifa upp á þá tillögu sem hér liggur fyrir og er til umræðu vissu ekkert hvað þeir voru að skrifa upp á og hafa gert það á kolröngum forsendum. Hér hafa menn haldið því fram að það hafi verið teknar einhverjar ákvarðanir sisona, byggðar á einhverju persónulegu mati og í trássi við allt faglegt mat þegar færðir voru kostir úr vernd í biðflokk á síðasta kjörtímabili. Menn horfa algerlega fram hjá því að 12 vikna umsagnarferli hafði farið fram þarna á undan. Menn þurftu að taka fyrir þær umsagnir sem þá komu fram og síðasta ríkisstjórn og meiri hluti þingsins ákvað að gera það með þeim hætti að biðja vekefnisstjórnina um faglegt mat. Það er síðan hæstv. ráðherra hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tekur þá ákvörðun að senda erindisbréf (Forseti hringir.) til verkefnisstjórnar 3. áfanga og (Forseti hringir.) biðja hana um að meta ákveðna þætti sem hv. þingmaður telur núna að gangi of langt eða gangi lengra (Forseti hringir.) en verksvið hennar nái yfir.

Það þarf að fara yfir þetta mál allt frá A til Ö með hv. þingmanni. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)