144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:55]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er spurning hvort bændurnir í atvinnuveganefnd álíti sig lækna líka og ætli að skella sér í keisara með ánum. Nei, í alvörunni, þegar við erum farin að ræða þetta hérna og í ljós kemur að einhverjum þingmönnum þykir of mikið af gögnum liggja til grundvallar þá er ég farin að óttast svolítið hvar við erum stödd. Hvernig geta ákvarðanir verið teknar á grundvelli of mikilla upplýsinga?

Það er alveg ljóst að við sem erum í atvinnuveganefnd höfum ekki það hlutverk og erum ekki í verkefnisstjórn rammaáætlunar og við höfum ekki þau gögn sem til þarf til að ákvarða um þá tillögu sem hér er rætt um. Þess vegna þarf að taka hana af dagskrá. Ég legg til að fundi verði slitið til að ræða það mál betur.