144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eitt af markmiðum okkar í Bjartri framtíð var að vera ekki mikið að þvælast í ræðustól og tefja þingstörf en það er nú eiginlega ekki hægt annað þegar farið er fram með slíkri valdbeitingu og offorsi í þessu máli. Það er bara þannig, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, eins slæmt og mér þykir að segja það. Ekki síst þegar maður fer að skoða það að gefin var út skýrsla árið 2013 um traust til Alþingis. Þar varð aðalniðurstaðan þetta eilífa karp okkar þingmanna um allt og ekki neitt og að ekkert gerðist. Það er óskiljanlegt hvernig mönnum dettur í hug að henda þessari tillögu inn í þingið rétt fyrir lok þings vitandi hvaða áhrif það hafði fyrir áramótin þegar þeir lögðu hana fram og greinilega án þess að ræða við kóng eða prest í sínum flokkum meira að segja, ég tók nú eftir því.

En ég mun tala í þessu máli eins og öllum öðrum. Þó að ég hafi ekki 100% vit á þessari rammaáætlun þá veit ég að það er verið að ráðast gegn landinu og það er ekki einu sinni verið að hlusta á fagfólk. Það er ekki einu sinni verið að hlusta á fólkið sem býr við Þjórsá. Við þingmenn fengum bréf frá 38 bændum sem búa við Þjórsá og það er algerlega verið að hunsa það hvað þeir eru að segja.