144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Best er nú að taka bara bjölluna úr salnum. Það er ekkert gagn að henni annað en æsa til hávaða og trufla áhorfendur. Ég held að forseta dugi alveg að stjórna fundi með röddu sinni og hamri eins og á öðrum fundum.

En fjármálaráðherra hefur teflt fram sjónarmiðum sínum í málinu og er ástæða til að minna á það að stjórnarflokkarnir fengu minni hluta atkvæða, þeir þurfa því að fara býsna varlega í því að tala um meiri hluta í þessu sambandi. Hins vegar er ástæða til að gera við það alvarlegar athugasemdir að þessi umræða haldi áfram, því að þó að segja megi eins og sagt er á ensku „one down, three to go“ eða einu bjargað og þrjú enn eftir, þá er þetta ekki þannig að atvinnuveganefnd geti hér verið að gera hrossakaup um einn og einn kost úr ræðustól. Það er fullkomlega ósæmilegt. Þetta snýst ekki um pólitísk hrossakaup, þetta snýst um fagleg vinnubrögð.