144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hæstv. forseti sagði hér áðan að úrskurður hans hefði meðal annars tekið tillit til álita frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þess sér ekki stað í úrskurði forseta. Ég sé engin rök færð fyrir því þar að það þyki eðlilegt eða af hverju það sé forsvaranlegt að ganga í berhögg við álit ráðuneytis þaðan sem rammaáætlun kemur. Þess vegna verð ég að segja, af því að hv. stjórnarþingmenn hafa vitnað í að við þurfum að lúta valdi dómarans, þessi úrskurður lyktar af pólitík og ber ekki með sér að vera hlutlaust mat á því hvort þetta mál, svo umbúið, þ.e. breytingartillagan, sé þingtækt. (Forseti hringir.) Við teljum svo ekki vera. Þess vegna stöndum við vaktina hér.