144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur komið fram að það ríki ekki traust, hvorki af hálfu hæstv. umhverfisráðherra né hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, til þeirra faghópa sem skiluðu áliti til okkar í atvinnuveganefnd um að Þjórsá væri ekki fullrannsökuð og þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun ætlaði að notast við þar. Þar ríkir líka vantraust gagnvart verkefnisstjórn 3. áfanga og gagnvart umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er með ólíkindum að heyra hæstv. umhverfisráðherra tala á þessum nótum og líka hv. þm. Pál Jóhann Pálsson sem hélt framsögu áðan um málið. Það er ekki boðlegt að hafa þetta mál á dagskrá þegar verið er að lýsa algeru vantrausti á faghópa (Forseti hringir.) og verkefnisstjórnir sem eru skipaðar hér.

Er boðlegt að hafa þetta á dagskrá hérna enn og halda áfram að ræða málið á þessum (Forseti hringir.) nótum? Mér finnst það ekki.