144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum að taka enn einn hringinn í þessari umræðu. Hér flytja þingmenn sömu ræðuna aftur og aftur og halda málþófinu áfram og ég verð að segja eins og er að ég held að virðing þingsins hrapi hjá þeim sem eru að horfa á þetta í sjónvarpinu frá degi til dags. (Gripið fram í.) Ég er að reyna það, ég er að reyna að hífa virðinguna upp.

Ég vil aðeins gera athugasemd við það sem hv. þm. Páll Valur Pálsson sagði hér áðan (Gripið fram í: Björnsson.) — Björnsson, fyrirgefið — að það væri ekkert hlustað á fólkið í nágrenninu. Það var líka þannig árið 2010 þegar hæstv. þáverandi umhverfisráðherra neitaði að skrifa undir skipulagið um þrjár virkjanir í Þjórsá. Við skulum bara halda því til haga þó að ég sé ekki mikið fyrir að tala um gamla tíma. Ég held að við ættum að reyna að hafa umræðuna hófstillta að því leytinu til.

Ég vil líka minna á að það kom fram í rammaáætlun 3 að ekkert var rætt við Veiðimálastofnun og þeir hafa sagt á nefndarfundi í atvinnuveganefnd að þó að Þjórsá yrði rannsökuð í 100 ár í viðbót yrðu menn alltaf með sömu gagnrýnisraddirnar og sömu niðurstöðuna.