144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mönnum verður tíðrætt um virðingu Alþingis. En sem betur fer er virðing Alþingis ekki meiri en hún er. Það væri hættulegt fyrir lýðræðið ef fólk bæri virðingu fyrir þingi sem er ekki virðingarvert. Lykilatriðið í þessu máli er ekki það að reyna að hífa upp einhverja virðingu, lykilatriðið er að fara að hegða okkur á virðingarverðan hátt þannig að rétt sé að bera virðingu fyrir okkur. Bjarni Benediktsson er með tillögur um það hvernig hægt væri að bregðast við þessu og hann skilgreinir vandamál á þann veg að það sé talað svo mikið hérna. Nei, það eru einkennin. Vandamálið er samráðsleysi. Það er ekki verið með samráð um langtímastefnumótun í þessu samfélagi, það er vandamálið.

Ef menn ætla að fara að ráðast á einkennið, sem er málþóf, að menn tali of lengi hérna, tefji mál, og ætla að gera það með því að stytta ræðutíma þingmanna o.s.frv., með alls konar leiðinlegum aukaverkunum sem eru slæmar fyrir lýðræðið, mun það ekki leysa neitt. Menn fara þá bara frönsku leiðina, leggja fram endalausar breytingartillögur um mál. Á þá að takmarka tækifæri manna til að leggja fram breytingartillögur? Verður það þá leiðin að ráðast á það einkenni? Er það þá lausnin? Lausnin í þessu máli er að þjóðin fái neitunarvald á löggjöf sem Alþingi er að samþykkja. Þá mundi þurfa að vera samstarf hér inni og sátt í samfélaginu um mál, annars stöðva landsmenn bara málið.