144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra sem hér hafa talað og nefnt þá augljósu staðreynd að það er ekki hægt að halda þessum fundi áfram. Hér talaði hæstv. umhverfisráðherra áðan gegn eigin ráðuneyti. Hún talaði gegn verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar. Hún styður með orðum sínum að Hagavatnsvirkjun ein sé dregin til baka í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar og gengur þar með þvert gegn þeim sem starfa í hennar umboði, bæði ráðuneytinu og verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar.

Þetta er orðin alvarleg staða. Maður hafði áhyggjur af því framan af kjörtímabili að umhverfisráðuneytið væri ekki mannað, að menn ætluðu að afgreiða það þannig að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson yrði þar í hjáverkum. Það var mikið óráð. Ég fagnaði því þegar ráðuneytið var loksins mannað. Ég er verulega hugsi yfir því hvort það hafi verið til bóta.