144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að okkur er mikill vandi á höndum þegar við erum núna að rífast um það hvort við eigum að virða lög og reglur í landinu. Hér erum við í raunveruleikanum að upplifa nákvæmlega það sama og gerðist í upphafi kjörtímabils þegar menn ákváðu að henda náttúruverndarlögum. Þau voru ónothæft. Það tókst. Svo kom í ljós þegar maður sat í nefndinni og var að ræða málin að það var eiginlega enginn ágreiningur um það sem var í lögunum.

Hér erum við allt í einu farin að rífast um mál sem snúast um að vernda og nýta, við sem erum á því að gera þurfi hvort tveggja og vorum tilbúin að hleypa Hvammsvirkjun, sem er tillaga hæstv. ríkisstjórnar, í gegn. Nei, nei, þá dugir það ekki, það á að hleypa einhverju öðru í gegn í leiðinni með látum í staðinn fyrir að fara venjulega ferlið. Óttast stjórnarliðar að verkefnisstjórnin muni ekki afgreiða málið með eðlilegum hætti? Er það það sem hæstv. ráðherra er að segja? Ætlar hún nú að sniðganga alla þessa aðila? Það er grímulaust verið að (Forseti hringir.) tala um að menn fari gegn lögum og reglum sem við höfum samþykkt á þessu þingi.