144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Í löndum sem vilja kalla sig lýðræðisþjóðfélög og vilja auka lýðræði hefur enginn áhyggjur af mætti meiri hlutans. Fólk hefur áhyggjur af því hvernig minni hlutinn er fótum troðinn og þess vegna er ekkert annað en hlægilegt að sjá þær tillögur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur til að setja inn í þessa umræðu.

Ég vil líka minna á það, af því að ég held að það skipti máli, að þetta er síðari umræðan um málið. Það er ekki eins og það séu þrjár umræður. Það er ekki eins og það gefist einhver umþóttunartími á milli 2. og 3. umr. þar sem fólk getur lagað eitthvað til og komið til móts hvert við annað í lokin. (Forseti hringir.) Það er ekki eins og hér. Við erum í lokaumræðunni og það er bara valtað yfir minni hlutann. Það er valtað yfir hann.