144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka ósk mína um að forseti slíti þessum fundi og kalli til sín forustumenn flokkanna til að fara yfir þau alvarlegu tíðindi sem við höfum orðið vitni að í dag, sérstaklega eftir að hæstv. umhverfisráðherra hélt ræðu sína. Hér er verið að ráðast með stórkarlalegum hætti inn í ferli sem bundið er í lög, sem samþykkt voru í þverpólitískri sátt. Þetta er mjög alvarlegt. Það er um auðlindir þjóðarinnar að tefla og fyrir um 20 árum síðan hófst ferlið við að finna leið til sátta til að hver einasti kostur væri ekki stöðugt undir deilum og látum og illdeilum stafna á milli meðal þjóðarinnar.

Frú forseti. Það sem nú er að gerast er að verið er að taka þessa 20 ára vinnu (Forseti hringir.) hundraða manna og henda henni út um gluggann. Það er ekki aðeins verið að valta yfir minni hlutann heldur yfir vilja þjóðarinnar í málinu.