144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er eðlilegt að ræða virðingu Alþingis undir þessum lið og mér finnst góðar spurningar hafa vaknað í kringum það. Því er haldið fram af hv. þingmönnum meiri hlutans að það að við sýnum andstöðu okkar við þetta mál sé á einhvern hátt ógn við virðingu Alþingis.

Nú er það svo að hvert sem við lítum á þjóðþingum í kringum okkur eru ýmsar leiðir fyrir minni hluta til að sýna andstöðu sína og jafnvel stoppa mál, heldur betur. Þar hefur meiri hlutanum lærst að það skiptir máli að eiga samráð, að það skiptir máli að það séu skýrir ferlar, að það skiptir máli að fylgja ferlum og þess vegna sjáum við ekki oft senur á borð við þær sem við sjáum á þessu þingi á þjóðþingunum í kringum okkur, þar hegða menn sér öðruvísi. Þar er leikreglunum fylgt þannig að fólk er frekar að ræða efnisatriði máls, eins og hér hefur verið bent á. Ef við ræðum virðingu Alþingis held ég að við ættum að byrja á því að fara eftir þeim leikreglum sem eru settar í lög til þess að til svona umræðna þurfi ekki að koma.