144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að fá að vita hvort hæstv. forseti hefur leitað eftir því að menn taki þetta mál af dagskrá og fari að snúa sér að öðrum málum. Ég bendi á óundirbúnar fyrirspurnir í morgun þar sem hæstv. forsætisráðherra sat fyrir svörum. Hann benti á að ýmislegt væri í gangi varðandi lausn kjarasamninga. Þá ber að fagna því að Starfsgreinasambandið hefur nú frestað boðun verkfalla og virðist vera að vinna að samningum við viðsemjendur sína. Á sama tíma virðist eitthvað ganga verr hjá BHM en mikilvægt er að vita hvað er verið að gera. Þar boðar hæstv. forsætisráðherra, eða það mátti skilja það þannig, að m.a. þetta mál væri til umræðu í kjaramálum, þar sem vitnað var í afstöðu ASÍ varðandi virkjunarmál. Þetta held ég að verði að skýrast áður en við höldum áfram umræðunni, áður en við förum í aðalræður og ljúkum umfjöllun um málið sem núna er til síðari umr.

Eitt brýnasta málið núna er að reyna að ná sátt og samningum um kjarasamninga og þess vegna ættum við að vera að ræða það.