144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Auðvitað er það þannig að það er kosið á fjögurra ára fresti. En við sem höfum verið að veltast í þessu þjóðfélagi síðustu hálfa öldina höfum tekið eftir gríðarlegum breytingum og eins og hv. þingmaður kemur inn á þá er fólk orðið miklu meðvitaðra um það sem er að gerast í samfélaginu. En því miður virðast þessi stjórnvöld ekki alveg átta sig á því. Ég talaði áðan um stefnuyfirlýsingar — það er ein setning um rammaáætlun í stefnuyfirlýsingunni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða verður endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa sérfræðinga sem verkefnisstjórn skipaði.“

Þetta er það eina sem sagt er um rammaáætlun sem er gríðarlega stórt mál þegar maður fer að velta því fyrir sér. Mig langar til að spyrja þingmanninn aftur, hann hefur kannski ekkert svör við því: Hverra hagsmuna eru menn að ganga sem ákveða að ganga svona á svig við lögin og nefna það ekki í kosningabaráttunni, fyrir kosningar?