144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að gera athugasemd við fundarstjórn hæstv. forseta þó að hæstv. forseti hafi beðið viðkomandi þingmann afsökunar, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, á því að hafa gert athugasemdir við efnisinnihald spurninga hennar, að þær væru ekki nógu nærri því efni sem við ræddum hér. Ég hef skilið það svo að okkur þingmönnum væri heimilt að koma úr ýmsum áttum að því umræðuefni sem er hér hverju sinni og að okkur þingmönnum væri frjálst að tala með hvaða hætti sem við vildum og spyrja þingmenn út í það sem við vildum hvernig sem við kæmum að málinu. Ég vissi ekki að hæstv. forseti legði fram eitthvert þema andsvara. Það er ekki boðlegt og við eigum að fá að tala frjálst frá ýmsum hliðum við aðra þingmenn hér inni um það sem við viljum gera.