144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú á sömu leið og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ég minnist þess ekki fyrr að hafa heyrt forseta gera athugasemdir við efnisinnihald í ræðum eða andsvörum þingmanna. Auðvitað gera menn athugasemdir við þá sem ræða um fundarstjórn eða í atkvæðaskýringum en aldrei hef ég heyrt það fyrr í ræðum eða andsvörum. Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir ætla ég að hrósa forseta fyrir að hafa beðið hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur afsökunar á ummælum sínum.

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og hefur verið gert hér oftsinnis fyrr í dag, fara fram á það að þetta mál um rammaáætlun verði tekið af dagskrá vegna þess að það er óunnið. Það er auðsjáanlega óeining innan stjórnarflokkanna um þetta efni. Í rauninni, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, þá er verið að hafa okkur að fíflum (Forseti hringir.) með því að láta okkur vera að ræða þetta mál eins og það er búið í hendurnar á okkur.