144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þá afstöðu mína sem hér hefur líka komið frá nánast öllum stjórnarandstæðingum í þinginu, að við ættum að henda þessu máli út sem nú er til umræðu. Við getum tekið upphaflegu tillöguna og afgreitt hana, sem er Hvammsvirkjun, sem er efnisgreining þessa dagskrárliðar, þ.e. við eigum að fjalla um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og þar er Hvammsvirkjun sérstaklega sett í sviga. Það hefur komið fram hjá flestum þingmönnum hér að menn eru tilbúnir að afgreiða það mál enda er búið að afgreiða það í sambandi við rammaáætlun.

Það sem ég hef áhyggjur af og tengist hæstv. forseta er að til þess að gæta virðingar Alþingis og tryggja aðkomu þess að stærri málum þá þurfum við í mjög auknum mæli að vinna stefnur og áætlanir fram í tímann, líkt og er verið að gera með ríkisfjármálaáætlun, líkt og var gert með rammaáætlun. Næsta mál hér á dagskrá fjallar um kerfisáætlun en þingið tók það mál og sendi það aftur til nefndar til þess að tryggja aðkomu Alþingis að því. Þetta snýst um stöðu þingsins og hæstv. forseta. (Forseti hringir.) Ég ætla því að biðja menn að (Forseti hringir.) eyðileggja ekki þær tillögur sem hafa komið um áætlanir heldur kippa þessu máli út og síðan verður (Forseti hringir.) svarað hér í þinginu, líka af þeim sem flytja þetta mál: Hvað mundi taka langan tíma að fara (Forseti hringir.) með þessa fjóra virkjunarkosti í gegnum umfjöllun í verkefnisstjórn?