144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fimm og hálfur þingdagur er eftir og af þeim fer einn í eldhúsdag. Það eru ótrúlega mörg mál sem ég tel að ríkisstjórnin þurfi að afgreiða, m.a. það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum sem mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar, afnám hafta. Það frumvarp átti að koma hér inn nokkrum dögum eftir að fjármála- og efnahagsráðherra nefndi það. Síðan eru liðnir ansi margir dagar en um það hlýtur að þurfa að fjalla í þinginu.

Eins og hér hefur komið fram er félags- og húsnæðismálaráðherra lagður á flótta með sín mál þannig að ekki verður það innlegg í kjarabaráttuna og ekki gengur eftir það öryggi í húsnæðismálum sem á að vera „í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform“ eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Ég held að þingið hafi mun meira að gera við þau þörfu verkefni sem eru tíunduð í (Forseti hringir.) stjórnarsáttmálanum en að eyða tíma okkar í þessa umræðu.