144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að ræða um fundarstjórn forseta. Hæstv. forseti bað þingmenn áðan um að halda sig sem næst því umræðuefni sem væri á dagskrá. Nú virði ég það við hæstv. forseta að hún hafi beðið hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur afsökunar á þessu inngripi en ég verð að segja að svona tilmæli frá forseta koma illa við þingmenn, sér í lagi í kjölfar ummæla sem höfð eru eftir hæstv. fjármálaráðherra af Facebook-síðu hans þar sem hann vekur máls á því hvort breyta þurfi þingsköpum og stytta mögulega ræðutíma þingmanna.

Hér hefur talsvert verið talað um að minnka þurfi vald forseta og auka aðkomu minni hlutans að dagskrárvaldinu. Ég verð að segja að það fer verulega um mann þegar hæstv. forseti fer í ofanálag að blanda sér í ræðuinnihald (Forseti hringir.) eða tengingar sem hv. þingmenn koma með í ræðum sínum. Þá er verulega vegið að lýðræði og málfrelsi (Forseti hringir.) þingmanna.