144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sleppti honum. Undir þeim kringumstæðum sem við erum akkúrat í núna í þinginu þá ríður á að hæstv. forseti fari mjög vel með sitt vald. Það er þá sem reynir á hversu vel hæstv. forseti fer með fundarstjórn sína. Það er umhugsunarefni þegar flokksskírteinið gægist upp úr brjóstvasanum hjá virðulegum forseta. Þá er ég ekki bara að tala um þann sem núna er í stólnum.

Ég vil spyrja forseta hvaða hugmyndir forseti hafi um framvindu þessa fundar. Nú er klukkan hálffimm á föstudegi og ég vil spyrja hversu lengi sé áformað að halda þessum fundi áfram. Það hlýtur öllum að vera ljóst að það verður ekki mjög hröð framvinda hér eftir. Ég spyr forseta hvort hún telji ekki nóg komið og menn eigi að fara að setjast yfir það hvort það séu einhverjir lausnarmöguleikar í sjónmáli.