144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Að þessu sinni ætla ég ekki að ræða það að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé óþingtæk, heldur þá staðreynd að það er ekki bara vilji til þess að fara á svig við rammaáætlun sem ræður för, heldur er verið að breiða yfir fullkomið getuleysi ríkisstjórnarinnar til þess að takast á við þær aðstæður sem eru á vinnumarkaði og þær alvarlegu aðstæður sem eru á húsnæðismarkaði.

Ég sem þingmaður hlýt að spyrja sjálfa mig að því hvort það sé eðlilegt að ég þurfi að vakta ljósvakamiðla til þess að vita hvað ráðherrarnir aðhafast. Ég hlustaði á hæstv. félagsmálaráðherra lýsa því yfir að frumvörpin væru á leiðinni. Það er augljóslega ekki nóg að hlusta á útvarpið, það virðist rangt sem þar kemur fram því að nú upplýsir annar fjölmiðill um að svo sé ekki. Það er kannski rétt sem varaformaður Samfylkingarinnar benti hér á og var snupruð fyrir, (Forseti hringir.) að verið sé að hylja þær staðreyndir að þessi ríkisstjórn er fullkomlega vanhæf í að takast á við það ástand sem hér er.