144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er svolítið undarlegt að við stöndum hér í ræðustóli og ávörpum hæstv. forseta og ætlum honum að svara fyrir allt það sem varðar dagskrárvaldið í þinginu. En það er rétt að minna á að við erum þannig sett að við erum með forsætisnefnd í þinginu þó að venja sé að forseti einn ákveði hvað er á dagskrá. Mig langar að spyrja hæstv. forseta sem nú er á forsetastóli hvort dagskrá eða skipulagning á þinghaldinu hafi verið rædd í forsætisnefnd.

Staðan er orðin þannig núna að ég held að það væri skynsamlegast ekki bara að hætta í þessu máli heldur að stoppa þingið í viku eða svo á meðan við fáum að vita á hverju við eigum von í vor. Við fáum hér tilkynningar um að frumvörp séu væntanleg, komi ekki, eitthvað í kjarasamningum, kannski ekki. Er ekki þá eins gott að við förum bara og röðum þessu alveg upp á nýtt? Ég skora á hæstv. starfandi forseta að krefjast þess að forsætisnefnd fundi og skipuleggi þingið núna næstu (Forseti hringir.) vikurnar miðað við að við fáum einhverja skýringu á því á hverju er von á vormánuðum.