144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það sem mér þykir líka svo óskaplega sorglegt við það að við séum að ræða þessi mál hér, þegar eldar loga á vinnumarkaði og við eigum að vera að taka á þeim málum með myndarbrag, er að ráðherrarnir skuli halda því fram í útvarpsþáttum, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi hér áðan, og kynda enn undir að það sé von á frumvörpum hingað inn sem skipti máli fyrir þá deilu. Núna kemur í ljós að í meira en tvær vikur hefur legið fyrir að þessi frumvörp munu ekki koma hingað inn. Samt heldur ráðherra öðru fram í útvarpsviðtali. Hvað gengur mönnum eiginlega til? Hvernig væri að koma hreint fram og segja: Við ráðum ekki við ástandið, tökum nú höndum saman og reynum að gera eitthvað af viti þannig að það megi svara kalli um bætt lífskjör fólksins í landinu. Við jafnaðarmenn, og stjórnarandstaðan öll, veit ég, erum sko sannarlega tilbúin í það samtal. Ég held að það veiti ekki af að fara að byrja það.