144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þó að heimilt sé að halda fundinum áfram til klukkan átta er býsna óvenjulegt, nema mikið liggi við eða þinglok í aðsigi, að halda umræðum mikið lengur áfram en þetta á föstudegi, en látum það nú vera.

Ég vildi fá að gera nokkrar athugasemdir við það að fjármálaráðherra sé að hlutast hér til um þingstörf sem hann hirðir ekki um að taka þátt í. Sums staðar er það þannig að fólk sem á að vera í vinnunni má ekki vera á Facebook. Kannski er ástæða til að segja við hv. þingmann og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson að þegar hann á að vera í vinnunni eigi hann ekki að vera á Facebook. Það er alla vega alveg ljóst að hann er ekki að greiða sérstaklega fyrir þingstörfum með því sem hann er að aðhafast á Facebook þegar hann á að vera á þingfundi. Ég leyfi mér að efast um að það séu nauðsynleg forföll.