144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil bara taka undir með þeim sem hafa komið hér upp og hvatt forseta til þess að slíta þessum fundi og reyna að leita sátta í málinu. Það er alveg ljóst að þetta mun ekki enda hér í dag eða á næstu dögum. Ég velti líka fyrir mér hvers vegna í ósköpunum verið er að leggja þessa tillögu fram. Ég gæti vel skilið það ef rafmagn vantaði í landinu eins og kom fram hér áðan. Það vantar ekkert rafmagn, það vantar ekki neitt. Hér hafa stjórnarþingmenn talað um það að koma þurfi hjólum atvinnulífsins af stað. Hvar er sprungið þar? Það er 3% atvinnuleysi hér á landi, rétt rúm, og komið hefur fram í málefnum forustumanna ferðaþjónustunnar að svo mikil vinna er fram undan að flytja þarf fólk inn í stórum stíl til að sinna henni. Og svo tala aðrir stjórnarþingmenn um það, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, að þetta sé framtíðin fyrir börnin okkar og þetta séu gullin atvinnutækifæri fyrir börnin. Leyfum þeim þá að ákveða hvort það eigi að virkja, því að okkur vantar ekki rafmagn, það er alveg á hreinu.