144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég finn mig knúna til þess að koma hér og bera blak af formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég er sannfærð um að brotist hafi verið inn á Facebook-reikninginn hans og hann hljóti að vera á leiðinni hingað niður eftir til að segja okkur að hann hafi látið grípa til viðeigandi ráðstafana og lýsi því yfir að hann muni að sjálfsögðu aldrei taka svo alvarlega umræðu sem þessa á samfélagsmiðlum umfram það frekar en að koma hingað í ræðustól og taka umræðu hér. Ég leyfi mér bara að trúa því þangað til annað kemur í ljós að þetta geti bara ekki verið.

Ég kem hér sem formaður velferðarnefndar og lýsi yfir furðu minni á því að hæstv. félagsmálaráðherra hafi haldið einu fram í útvarpinu sem kemur svo nokkrum dögum síðar í ljós að var rangt, og við í þinginu höfum verið að undirbúa okkur undir að taka við málunum sem skipta máli fyrir fólk á leigumarkaði.

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta fullkomin (Forseti hringir.) vanvirðing við hv. velferðarnefnd og þingmenn (Forseti hringir.) og ég ætlast til að hæstv. forseti (Forseti hringir.) fari yfir þessi mál með hæstv. félagsmálaráðherra og fái skýringar á þessari tvísögu og þessari töf.